Minnst fimm látnir í Kongsberg

Aðgerðir lögreglu í Kongsberg.
Aðgerðir lögreglu í Kongsberg. AFP

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir árásirnar í Kongsberg í Noregi, þar sem árásarmaður réðist að fólki með boga og örvum. 

Þetta kemur fram í frétt norska miðilsins VG

Lögreglan í Kongsberg hefur handtekið manninn, sem hóf árásina í verslun miðsvæðis í bænum. Ekki er vitað hvað honum gekk til. Lögregla um allan Noreg eru í viðbragðsstöðu. Það er sjúkrahúsið í Kongsberg sömuleiðis. 

Lögreglan í Kongsberg útilokar ekki að um hryðjuverk hafi verið að ræða, án þess þó að fullyrða um slíkt. Hún nýtur nú aðstoðar lögregluyfirvalda frá stærri byggðarlögum, þar sem hún segist aldrei hafa tekist á við jafnalvarlegt mál og þetta.

Um 26 þúsund manns búa í Kongsberg og samkvæmt tölum á vef norsku hagstofunnar eru 69 Íslendingar búsettir í bænum.

Kongsberg er rétt utan við bæinn Drammen og skammt frá …
Kongsberg er rétt utan við bæinn Drammen og skammt frá höfuðborg landsins, Osló. Kort/Google

Líklega einn að verki 

Á blaðamannafundi sem hófst klukkan 20 að íslenskum tíma sagði lögreglan í Kongsberg að minnst fjórir væru látnir og fleiri særðir til viðbótar. 

Einnig kom fram að lögregla gæti ekki tjáð sig meira um málið að svo stöddu, þar sem það væri enn til rannsóknar. 

Tilkynning um árásina barst lögreglu klukkan 18:13 á norskum tíma og var maðurinn handtekinn klukkan 18:47. 

Lögregla er ekki í leit að fleirum árásarmönnum og af því má leiða að lögregla telji manninn hafa verið einan að verki. 

Bæjaryfirvöld í Kongsberg hafa virkjað fjöldahjálparstöð fyrir þá sem þurfa á andlegum stuðningi að halda. 

Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í Kongsberg og nágrenni til þess að láta fjölskyldu og vini vita að þau séu óhult, en ef Íslendingar eru í vanda staddir er best að hafa samband við borgaraþjónustu ráðuneytisins. Þetta segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, við mbl.is. 

Uppfært kl. 21:02

Upphaflega sagði að fjórir væru látnir vegna árásarinnar. Ljóst er að þeir eru minnst fimm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert