Segjast ekki nota orku sem pólitískt vopn

Pútín þvertekur fyrir að haldið sé aftur að gasbirgðum.
Pútín þvertekur fyrir að haldið sé aftur að gasbirgðum. AFP

Rússar þvertaka fyrir það að nýta orku sem pólitískt vopn en hækkandi verð á gasi hefur orðið til þess að gasreikningar evrópskra heimila hafa hækkað upp úr öllu valdi. BBC greinir frá.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sagði slíkar ásakanir algjöra þvælu, en Rússar, sem búa yfir hvað mestu náttúrulegu gasbirgðum í heiminum, hafa verið sakaðir um að halda vísvitandi aftur af birgðum sínum.

Framkvæmastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út leiðbeiningar um hvaða aðgerðir aðildarríkin geti gripið til, til að berjast gegn frekari verðhækkunum á gasi, en heildsöluverð hefur hækkað um 250 prósent síðan í janúar.

Verðhækkanir má rekja til ýmissa þátta, meðal annars mikillar eftirspurnar eftir gasi nú þegar efnahagslífið er að jafna sig á eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Pútín tók til máls á orkuráðstefnu í Moskvu í dag þar sem hann kenndi Evrópu um krísuástandið sem upp væri komið. Evrópubúar hefðu ekki aukið nægilega á gasbirgðir sínar eftir kaldan síðastliðinn vetur.

Þá fullyrti hann að rússneski orkurisinn, Gazprom, væri að sjá Evrópubúum fyrir eins miklu gasi og hægt væri miðað við núverandi samninga, og væri tilbúinn að skaffa meira ef óskað væri eftir því. „Við aukum magnið ef félagar okkar biðja um meira. Engum hefur verið neitað,“ fullyrti hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert