„Hann játar á sig verknaðinn. Að hann hafi gert það sem hann er grunaður um, en að hve miklu leyti hann viðurkennir refsiábyrgð þurfum við að bíða með að ræða.“ Þetta segir Ann Irén Mathiassen, lögmaður lögreglunnar í suðausturumdæminu í Noregi, um 37 ára gamlan danskan ríkisborgara, búsettan í Kongsberg til margra ára og góðkunningja lögreglunnar þar, sem handtekinn var í gærkvöldi eftir að hafa myrt fimm manns með boga og örvum þar í bænum.
„Lögreglan kannast við hann frá fyrri tíð án þess að ég vilji fara nánar út í hvað hann hefur verið viðriðinn,“ segir Mathiassen enn fremur, en hún ræddi við TV2 í Noregi í nótt, eftir að hinn handtekni hafði sætt fyrstu yfirheyrslum og lagt fram játningu sína. Kveður lögmaðurinn þó um fjölda mála að ræða en TV2 upplýsir einnig að maðurinn hafi ítrekað leitað til heilbrigðiskerfisins, þótt ekki sé vitað nánar um kveikjuna að þeim samskiptum.
Maðurinn er sem fyrr segir danskur ríkisborgari og tengdur Danmörku gegnum móður sína. Hann var handtekinn 34 mínútum eftir að lögreglu bárust fyrstu tilkynningar um alvarlegt atvik í Coop-verslun í Kongsberg þar sem hann lét meðal annars til skarar skríða en lögregla kveður hann hafa beitt fleiri vopnum en boganum við atlögu sína. Hefur hún þó ekki greint frá því hvaða vopn þar var um að ræða.
Fredrik Neumann lögmaður, sem hefur verið skipaður verjandi árásarmannsins, kveður hann hafa greint lögreglu frá atburðarásinni í smáatriðum og sýnt mikinn samstarfsvilja við fyrstu yfirheyrslu, sem fór fram í Drammen, þar sem maðurinn er í haldi, en farið verður fram á gæsluvarðhaldsúrskurð í dag.
Lögreglan segist hafa ákveðið að veita fjölmiðlum ákveðnar grunnupplýsingar, svo sem um danskan uppruna grunaða, þar sem þrálátur orðrómur og vangaveltur um ýmsa íbúa bæjarins, sem hugsanlegan árásarmann, hafi geisað á samfélagsmiðlum.