Danski ríkisborgarinn, sem hefur játað á sig að hafa myrt fimm manns, fjórar konur og einn karlmann, á aldrinum 50 til 70 ára, í Kongsberg í gærkvöldi, snerist til öfga-íslamstrúar 2019 eða í fyrra, en lögreglu höfðu borist nokkrar ábendingar um að þessi viðhorfsbreyting hans í trúmálum gæti verið áhyggjuefni þar sem hann aðhylltist öfgahlið trúarinnar.
Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem nú var að ljúka þar sem lögreglan í suðausturumdæminu lagði fram frekari upplýsingar um árásarmanninn. Sagði Ole Bredrup Sæverud lögreglustjóri lögregluna hafa fylgt ábendingunum eftir á sínum tíma en engar frekari ábendingar hefðu borist henni á þessu ári.
Þá hefur einnig komið fram að grunaði eigi sér nokkurn sakaferil, meðal annars hafi hann hótað nánum ættingja sínum lífláti á heimili hans 29. maí í fyrra, dregið þar upp Colt-skammbyssu og lagt hana á sófa þar á heimilinu með ógnandi háttalagi og í kjölfarið verið dæmt nálgunarbann í sex mánuði gagnvart þeim ættingja og öðrum til. Rauf hann það nálgunarbann um sumarið með annarri heimsókn.
Norska öryggislögreglan PST hefur nú einnig aðkomu að málinu og metur nú, í samstarfi við staðarlögregluna, hvort flokka beri árásina í gær sem hryðjuverk. „Við rannsökum meðal annars hvort þarna hafi verið unnið hryðjuverk,“ sagði Sæverud, „í svona alvarlegum málum er eðlilegt að kalla PST til, við sjáum svo til hvort þörf verði á frekari aðstoð þaðan,“ hélt hann áfram og svaraði því næst spurningu úr sal um hvort árásarmanninum yrði gert að sæta geðrannsókn. „Það er eitthvað sem stjórnendur rannsóknarinnar þurfa að taka afstöðu til, en það kæmi mér ekki á óvart ef svo færi,“ svaraði lögreglustjórinn.
Þá var það upplýst að öll fórnarlömb mannsins mættu örlögum sínum eftir að lögregla hafði fyrst haft afskipti af manninum í gærkvöldi. Klukkan 18:12 barst lögreglu fyrsta tilkynning um atlögu mannsins og liðu þá sex mínútur þar til fyrstu lögregluþjónar komu á vettvang og voru í návígi við bogamanninn sem þá skaut að þeim örvum og komst í kjölfarið undan.
„Ég veit ekki nákvæmlega hvar þetta var, en það var nálægt Coop-versluninni, hvort það var inni í henni eða í nágrenninu get ég ekki sagt nákvæmlega til um,“ sagði Sæverud.
Það var svo klukkan 18:47 sem maðurinn var handtekinn og vildu blaðamenn á fundinum fá að vita hvers vegna þetta hefði tekið hálfa klukkustund.
„Við höfðum ekki yfirsýn á svæðinu og þarna voru margar lögreglubifreiðar á vettvangi, en nákvæmlega hvers vegna [handtakan tók svo langan tíma] veit ég ekki,“ svaraði lögreglustjóri.
Meðal annarra upplýsinga sem fram komu á fundinum í morgun er að lögregla telur ekki ástæðu til að ætla annað en að maðurinn hafi verið einn að verki.