Espen Andersen Bråthen skilur að sögn verjanda hans, Fredrik Neumann, hvað hann gerði þegar hann myrti fimm íbúa bæjarins Kongsberg í Noregi og særði þrjá í gærkvöldi í atlögu sem er sú mannskæðasta í landinu síðan 22. júlí 2011 þótt hún hafi ekki tekið meira en 34 mínútur.
Bråthen sætti yfirheyrslum langt fram á nótt í fangelsinu í Drammen í gær og héldu yfirheyrslurnar áfram í dag auk þess sem grunaði undirgekkst bráðabirgðageðrannsókn, eftir því sem Neumann greinir norska dagblaðinu VG frá í kvöld. „Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að hann skuli sæta fullnaðargeðrannsókn,“ segir Neumann.
„Hann skilur hvað hann hefur gert og tjáir sig um atburðarásina í smáatriðum,“ segir hann enn fremur, en færist undan því að ræða um hvatann að árás skjólstæðings síns, hvað honum í raun hafi gengið til með ódæði sem hefur lamað heilt bæjarfélag af sorg og trega. „Ég segi ekkert meira en það sem ég hef þegar sagt um efni yfirheyrslunnar. Það er lögreglunnar að upplýsa fjölmiðlana og þjóðina í takt við gang rannsóknarinnar.“
Lögreglan hefur nú upplýst að lík fórnarlambanna fundust hvort tveggja innandyra sem utan í íbúðum í bænum og getur lögregla ekki staðfest að fólkið hafi í öllum tilfellum verið statt á sínum eigin heimilum. „Ég veit ekki hvernig það átti sér stað, en honum tókst að komast inn í íbúðir,“ segir Ann Irén Mathiassen, lögmaður lögreglunnar, við VG.
Eins og áður hefur komið fram beitti Bråthen boga sínum og tveimur öðrum vopnum sem lögregla kýs að tjá sig ekki um vegna rannsóknarhagsmuna.
Klukkan 09:00 í fyrramálið að norskum tíma, 07:00 að íslenskum, gengur lögregla á fund dómara við Héraðsdóm Buskerud í Kongsberg og fer fram á gæsluvarðhald yfir Bråthen. Þar sem hann hefur lýst sig samþykkan gæsluvarðhaldsúrskurði kemur hann ekki fyrir dómarann og verður úrskurðurinn því kveðinn upp á skrifstofu dómstólsins, ekki í dómsal, í því sem kallast kontorforretning, það er þegar enginn ágreiningur ríkir milli grunaða og lögreglu um gæsluvarðhald.