Undirbjuggu hryðjuverkaárás á Spáni

Lögreglan að störfum í Barcelona.
Lögreglan að störfum í Barcelona. AFP

Spænska lögreglan, með aðstoð hryðjuverkadeildar Europol, hefur handtekið fimm grunaða liðsmenn í sellu Ríkis íslams í borgunum Barcelona og Madríd.

Talið er að þeir grunuðu, sem eru allir alsírskir ríkisborgarar, hafi verið að undirbúa hryðjuverkaárás, að því er kemur fram í tilkynningu. 

Lögreglan handtók mennina eftir að fregnir bárust af því að þeir væru að reyna að kaupa hríðskotariffla af tegundinni Kalashnikov.

Þó nokkuð af skotfærum fundust á heimilum þeirra ásamt nokkrum stórum sveðjum.

Rannsókn lögreglunnar kallast ARBAC og hófst hún í desember í fyrra þegar spænska lögreglan komst að því að liðsmaður Ríkis íslams væri kominn til landsins.

Hann og tveir aðrir vitorðsmenn voru handteknir í Barcelona í janúar á þessu ári vegna gruns um undirbúning hryðjuverkaárásar. Hægt var að tengja þremenningana við náunga frá Alsír, þekktur sem „Sjeik“ sem talið var að hefði stjórnað hryðjuverkasellunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka