Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir hundruð vígamanna, sem hliðhollir eru hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, safnast nú saman í Norður-Afganistan með það í huga að ferðast á milli þeirra Mið-Asíulanda sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.
Þeir muni fara um í gervi flóttamanna.
„Samkvæmt okkar gögnum, þá telur fjöldi félaga í Ríki íslams í Norður-Afganistan um tvö þúsund manns,“ sagði Pútín á fjarfundi með leiðtogum annarra fyrrum Sovétríkja í morgun.
Fyrr í vikunni varaði hann við ógn sem hann segir stafa af reyndum bardagamönnum í Írak og Sýrlandi, með tengsl við Ríki íslams, sem fari yfir landamærin til Afganistans. Rússneska utanríkisráðuneytið hefur sagst búast við því að talíbanar, sem nýlega rændu völdum í landinu, sjái um þá ógn.