Morðið á Amess skilgreint sem hryðjuverk

Lögreglan á Bretlandi rannsakar nú morðið á þingmanninum David Amess sem hryðjuverk. Frá þessu greinir Dean Haydon, yfirmaður deildar lögreglunnar sem hefur með hryðjuverk að gera.

Amess, sem var 69 ára, var stunginn nokkrum sinnum á fundi með kjósendum í kjördæmi sínu. Bráðaliðar voru komnir á vettvang nokkrum mínútum eftir árásina, en það reyndist ekki nóg og lést Amess af sárum sínum á vettvangi.

Lögreglan handtók í kjölfarið 25 ára mann sem talinn er vera Breti af sómalískum uppruna. Hefur árásinni verið formlega lýst sem hryðjuverkaárás, en lögreglan segir að fyrstu niðurstöður rannsóknar hennar bendi til þess að tilefni árásarinnar sé tengt íslamskri öfgatrú.

Lögreglan segist nú framkvæma leit á tveimur heimilisföngum í London en telja þó að maðurinn hafi verið einn að verki. Heimildir BBC herma að maðurinn hafi ekki verið í gagnagrunni lögreglu um grunaða hryðjuverkamenn.

Priti Patel inn­an­rík­is­ráðherra sagði Amess hafa verið „mann fólksins“ og að hann hafi verið „myrtur er hann sinnti starfi sem hann elskaði“. Amess hef­ur verið þingmaður síðan 1983. Hann var gift­ur og skil­ur eft­ir sig fimm börn.

Hann er ann­ar þingmaður­inn á síðustu fimm árum sem hef­ur verið myrt­ur í Bretlandi.

Boris Johnson forsætisráðherra og Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins minntust Amess á vettvangi árásarinnar í morgun. 

Lögreglan fyrir utan kirkjuna þar sem árásin átti sér stað.
Lögreglan fyrir utan kirkjuna þar sem árásin átti sér stað. AFP
Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins og Boris Johnson forsætisráðherra minntust Amess …
Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins og Boris Johnson forsætisráðherra minntust Amess á vettvangi árásarinnar í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert