Nafngreina meintan ódæðismann

Fjöldi manns safnaðist saman í gærkvöldi í minningu um David …
Fjöldi manns safnaðist saman í gærkvöldi í minningu um David Amass sem stunginn var til bana á föstudaginn. AFP

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið breska þingmanninum David Amess að bana hefur verið nafngreindur. Heitir hann Ali Harbi Ali og er breskur ríkisborgari af sómalískum uppruna.

Samkvæmt frétt BBC hafði Ali áður farið á námskeið gegn öfgahyggju, en það er hluti af áætlun breskra yfirvalda til að stöðva fólk áður en það verður of halt undir öfgahyggju. Þó er tekið fram að hann hafi ekki setið námskeiðið lengi, en kennarar, almennir borgarar, heilbrigðisstarfsfólk og aðrir geta upplýst um einstaklinga sem þau telja líklega til að hallast að öfgahyggju og tekur þá sérfræðingahópur ákvörðun um hvort og hvernig eigi að hafa afskipti af viðkomandi.

Þátttakendur þurfa þó að fara á námskeiðið sjálfviljugir og ekki er hægt að skikka fólk á það. BBC greinir frá því að Ali hafi hins vegar aldrei verið formlega á lista bresku leyniþjónustunnar MI5 yfir hættulega einstaklinga.

Ali, sem er 25 ára, er nú í haldi lögreglunnar á grundvelli hryðjuverkalaga og hefur lögreglan fram á föstudag til að yfirheyra hann.

Amass var 69 ára gamall og hafði verið þingmaður frá árinu 1983. Hann var giftur og átti fimm börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert