Framámenn í bandarískum stjórnmálum hafa í dag lýst lýst yfir sorg sinni vegna fráfalls Colins Powell. Honum er lýst sem bæði stríðshetju og stjórnmálaskörungi, en fyrst og síðast var hann brautryðjandi í bandarísku samfélagi, sem varð nánast að táknmynd fyrir „bandaríska drauminn“, sonur innflytjenda sem náði að brjótast til æðstu metorða.
Colin Luther Powell fæddist í Harlem í New York-borg hinn 5. apríl 1937. Foreldrar hans, Luther og Maud Powell voru innflytjendur frá Jamaíka, og ólst Powell upp í suðurhluta Bronx-hverfisins, sem á þeim tíma þótti eitt mesta fátækrahverfi borgarinnar. Með námi sínu vann hann í húsgagnaverslun, og lærði Powell þar jiddísku, en margir af nágrönnum Powell-fjölskyldunnar voru af gyðingaættum.
Powell hélt til háskólanáms í jarðfræði og útskrifaðist frá City College í New York-borg árið 1958. Meðan hann var í háskólanámi gekk hann til liðs við ROTC, varaherforingjaskóla Bandaríkjahers fyrir háskólanema. Fann Powell þar loksins sína fjöl, og sagði hann síðar hafa lært þar að ef maður fyndi eitthvað sem manni líkaði vel, og ef maður væri góður í því, ætti maður að fylgja hjarta sínu.
Powell fékk við útskrift úr ROTC stöðu sem varalautinant í Bandaríkjaher, en þá var nýbúið að afnema skiptingu á grunni kynþáttar í hernum. Var Powell sendur til Vestur-Þýskalands sem yfirmaður flokksdeildar.
Powell var sendur til Víetnam árið 1962 sem hernaðarráðgjafi fyrir suðurvíetnamska herinn. Þar særðist hann ári síðar og var sendur heim. Powell sneri aftur til Víetnam árið 1968, og fékk þar heiðursmerki fyrir hugrekki eftir að hann lifði af þyrluslys og bjargaði þremur öðrum úr flaki þyrlunnar.
Skömmu síðar fékk Powell það verkefni að rannsaka ásakanir um fjöldamorð Bandaríkjahers í My Lai, en hann var gagnrýndur í seinni tíð fyrir að hafa reynt að hvítþvo herinn af ásökununum í skýrslu sinni.
Powell sagði síðar að sér hefði blöskrað það forystuleysi sem einkennt hefði Bandaríkjaher í Víetnamstríðinu, og mótaði stríðið sýn hans á hervald og beitingu þess síðar meir, þegar hann var orðinn yfirmaður alls herafla Bandaríkjanna.
Powell náði skjótum frama í hernum, og árið 1986 var hann skipaður yfirmaður 5. her Bandaríkjanna í Vestur-Þýskalandi. Hann dvaldi þó ekki lengi í þeirri stöðu, því ári síðar skipaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hann sem þjóðaröryggisráðgjafa sinn. Var Powell fyrsti blökkumaðurinn til að gegna því embætti, en Powell tók m.a. þátt í afvopnunarviðræðum Reagans við Míkhaíl Gorbatsjoff, leiðtoga Sovétríkjanna.
George H.W. Bush, eftirmaður Reagans, skipaði Powell sem fjögurra stjörnu hershöfðingja árið 1989, og varð hann einungis sá þriðji á eftir Dwight D. Eisenhower og Alexander Haig til að ná þeirri tign, án þess að hafa stýrt herdeild sjálfur. Síðar sama ár skipaði Bush eldri hann til að gegna formennsku í sameiginlegu herráði alls herafla Bandaríkjanna, en það er æðsta embætti sem hægt er að gegna í hernum.
Powell var fyrsti blökkumaðurinn til að gegna þeirri stöðu, auk þess sem hann var sá yngsti, og sá fyrsti sem náði því eftir að hafa gengið til liðs við herinn í gegnum herforingjaskólann. Voru ýmsir í Washington ósáttir með skipan Powells af ýmsum ástæðum, en Bush þótti hafa gengið framhjá mörgum eldri og reyndari hershöfðingjum.
Eitt fyrsta verkefnið sem Powell þurfti að sjá um var innrás Bandaríkjanna í Panama til þess að handsama Manuel Noriega. Sú innrás fékk heitið Operation Just Cause, og talaði Powell þar fyrir umfangsmikilli árás, á sama tíma og hann varaði Bush eldri við því að góðar líkur væru á að ekki tækist að handsama Noriega í fyrstu atrennu.
Aðgerðin tókst þó framar vonum, og fækkaði þá óánægjuröddum í garð Powells. Sást í aðgerðinni enda glöggt sú sýn sem Powell hafði til hernaðar, sem var að ganga ætti fyrst úr skugga um að hagsmunir Bandaríkjanna krefðust þess að beita þyrfti hervaldi, og ef svo væri ætti að beita eins miklu afli og mögulegt væri til þess að knýja fram sigur svo fljótt sem verða mætti.
Þegar Saddam Hussein og Íraksstjórn réðst inn í Kúveit árið 1990 reyndi aftur á Powell. Talaði hann þar fyrir skjótri uppbyggingu Bandaríkjahers í Sádí-Arabíu, og lagði aftur á ráðin um snögga frelsun Kúveit, sem tókst í janúar 1991. Powell talaði hins vegar þá gegn því að Íraksher væri lagður í algjört eyði, og einnig gegn því að haldið yrði alla leið til Bagdad eftir að sigur var í höfn í Persaflóastríðinu.
Powell var um þær mundir orðinn einn vinsælasti maður Bandaríkjanna, og var talið að það yrði leikur einn fyrir hann að sækjast eftir forsetaembættinu, ef hann vildi. Powell ákvað þó að láta ekki slag standa, þrátt fyrir að hart væri lagt að honum, meðal annars vegna þess að Alma eiginkona hans óttaðist um líf Powells, færi svo að hann byði sig fram. Hann þjónaði áfram í upphafi forsetatíðar Bills Clinton, en ákvað að fara á eftirlaun árið 1993.
George W. Bush ákvað að skipa Powell sem utanríkisráðherra sinn eftir kosningarnar árið 2000. Varð Powell þar með fyrsti blökkumaðurinn til þess að gegna þeirri stöðu, og um leið sá, sem hafði náð mestum frama í bandarískum stjórnmálum allt þar til Barack Obama var kjörinn forseti árið 2008.
Powell þótti standa sig að mörgu leyti vel í utanríkisráðuneytinu, en hann streittist þar á móti hugmyndum „hauka“ í ríkisstjórn Bush um að ráðast inn í Írak í stað Afganistan í kjölfar hryðjuverkaárásanna 2001. Deildi hann þar einkum við Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, sem þótti Powell helst tregur til átaka í stríðinu gegn hryðjuverkum.
Í aðdraganda Íraksstríðsins hvatti Powell til þess að Bandaríkjamenn leituðu fyrst leiða til þess að afvopna Saddam Hussein af meintum gjöreyðingarvopnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Náði Powell að koma því m.a. til leiðar að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í nóvember 2002 einróma ályktun nr. 1441, sem gaf Írökum eitt lokatækifæri til að sanna að þeir hefðu í raun losað sig við öll gjöreyðingarvopn sín.
Þrátt fyrir efasemdir sínar samþykkti Powell að hann myndi færa fram rök Bandaríkjastjórnar fyrir afvopnun Íraks á fundi öryggisráðsins hinn 5. febrúar 2003. Í ræðunni setti Powell fram þau gögn sem Bandaríkjastjórn taldi sig hafa um brot Íraka á ályktunum öryggisráðsins, en síðar kom í ljós að sum þeirra voru byggð á upplýsingum sem voru ótraustar. Þar á meðal voru ásakanir um meint tengsl Íraka við al Qaeda-hryðjuverkasamtökin, sem og ásakanir um að Írakar héldu úti hreyfanlegum rannsóknarstofum, þar sem þróuð væru sýklavopn.
Powell sagði síðar að hann sæi ennþá eftir því að hafa farið með rangt mál í ræðunni, þrátt fyrir að nær allt stjórnkerfi Bandaríkjanna hafi talið efni hennar rétt á þeim tíma. Sagði hann árið 2005 að ræðan myndi vera svartur blettur á ferli sínum það sem eftir lifði.
Þegar Bush yngri náði endurkjöri árið 2004, ákvað hann að skipa ekki Powell aftur sem utanríkisráðherra, og fór hann þá aftur á eftirlaun. Þrátt fyrir að Powell væri repúblikani ákvað hann að styðja Barack Obama í forsetakjörinu 2008. Obama minntist Powell fyrr í dag, og sagði hann hafa verið brautryðjanda, sem hefði hjálpað heilli kynslóð af ungu fólki að setja mark sitt hærra.
„Hann þrætti aldrei fyrir þau áhrif sem kynþáttur hans hafði á ævi hans, og á samfélagið í stærra samhengi. En hann neitaði að samþykkja að húðlitur hans myndi takmarka drauma sína, og með stöðugri forystu sinni náði hann að ryðja brautina fyrir svo marga sem fylgdu á eftir,“ sagði Obama meðal annars í yfirlýsingu sinni.