George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er á meðal þeirra sem minnast Colins Powells, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en Powell lést í morgun, 84 ára að aldri.
Bush, sem útnefndi Powell utanríkisráðherra í forsetatíð sinni, segir að Powell hafi verið merkur maður sem hafi veitt fjölmörgum forsetum ráðgjöf.
„Hann var frábær opinber starfsmaður, sem hófst þegar hann var hermaður á tímum Víetnamstríðsins,“ sagði Bush í yfirlýsingu.
Hann bætti því við að Powell, sem var einnig fyrrverandi ráðgjafi forsetans um þjóðaröryggismál og fyrrverandi yfirmaður bandaríska herráðsins, hefði notið mikillar virðingar, bæði í heimalandinu sem á erlendri grundu.
Powell lést í dag af völdum Covid-19.