Colin Powell látinn

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lést í morgun, 84 ára að aldri. Fjölskylda Powells tilkynnti á Facebook að banamein hans hefðu verið fylgikvillar Covid-19. 

Powell var fyrsti blökkumaðurinn sem gegndi embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna en hann tók við því embætti árið 2001 þegar George W. Bush var kjörinn forseti og hann átti stóran þátt í að móta utanríkismálastefnu landsins í lok 20. aldar og byrjun þeirrar 21.

„Colin L. Powell, hershöfðingi, fyrrverandi utanríkisráðherra og yfirmaður herráðsins, lést í morgun af völdum fylgikvilla Covid-19,“ segir í tilkynningu fjölskyldunnar. Fram kom að Powell hefði verið fullbólusettur gegn kórónuveirunni. 

Powell gegndi herþjónustu í Víetnamstríðinu og varð fyrsti blökkumaðurinn til að gegna embætti öryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta í forsetatíð Ronalds Reagans. Þá varð hann einnig fyrsti blökkumaðurinn til að gegna embætti yfirmanns herráðsins í forsetatíð Georges H.W. Bush. Vinsældir hans jukust mjög í kjölfar Persaflóastríðsins í byrjun 10. áratugar síðustu aldar og var talinn líklegur forsetaframbjóðandi fyrir Repúblikanaflokkinn. En orðstír hans beið hnekki þegar hann flutti ræðu árið 2003 á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og fullyrti ranglega að Írakar byggju yfir efnavopnum. Powell sagði sjálfur síðar, að þetta væri „blettur“ á ferilskrá hans.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert