Svo virðist sem tölvuþrjótur hafi brotist inn í hluta af heimasíðu Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og skipt út efni af síðunni fyrir slagorð og ræðu frá forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, að því er kemur fram á vef CNN.
Á heimasíðunni voru í dag skilaboð frá einstaklingi sem kvaðst vera tyrkneskur hakkari og aðgerðasinni (e. hacktivist). Stóð á síðunni:
„Ekki vera eins og þeir sem gleymdu Allah, svo Allah lét þá gleyma sjálfum sér.“ Auk þess var tengill á ræðu tyrkneska forsetans þar sem hann vitnaði í Kóraninn.
Sami hakkari mun hafa skipt út upplýsingum á heimasíðu kosningaherferðar Joes Bidens í nóvember í fyrra, nokkrum vikum eftir að Biden var kjörinn forseti.
Tölvuþrjótar hafa í auknum mæli upp á síðkastið hakkað sig inn á vefsíður til að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri.