„Kraftaverk“ að þeir fundust á lífi

Ástralskir lögreglumenn að störfum.
Ástralskir lögreglumenn að störfum. AFP

Tveir Ástralar fundust á lífi eftir að hafa verið marga daga án vatns í óbyggðum landsins, að sögn lögreglunnar.

Tilkynnt var um hvarf þeirra Shaun Emitja, sem er 21 árs, og Mahesh Patrick, 14 ára, á þriðjudaginn í Harts Ranges í miðri Ástralíu. Þeir höfðu ekkert látið vita af sér eftir að hafa ætlað að vera þar yfir helgi.

Eftir að blá bifreið þeirra af tegundinni Nissan Navara fannst yfirgefin í vegakanti hóf lögreglan leit að þeim með aðstoð þyrlu og sérfræðinga.

Þeir Emitja og Patrick voru taldir í mikilli hættu vegna vatnsskorts en á svæðinu fer hitastigið í yfir 40 stig. Þeir urðu aðskildir og að sögn lögreglunnar var það „algjört kraftaverk“ að þeir hafi fundist á lífi.

Patrick fannst í skóglendi seint á föstudaginn. Hann hafði ofþornað og var aumur í fótunum. Emitja fannst ekki fyrr en degi síðar en virtist ekki vera illa haldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka