Segja að Bezos gæti hafa logið að þinginu

Jeff Bezos.
Jeff Bezos. AFP

Stjórnendur hjá Amazon, þar á meðal stofnandinn og fyrrverandi forstjórinn Jeff Bezos, kunna að hafa afvegaleitt eða logið að þinginu um viðskiptahætti fyrirtækisins, að sögn bandarískra þingmanna.

Í fréttaflutningi Reuters segir að Amazon hafi afritað vörur og haft áhrif á leitarniðurstöður á Indlandi til að auka sölu á eigin vörumerkjum.

Amazon hefur hins vegar harðlega neitað ásökunum. „Amazon og stjórnendur þess afvegaleiddu ekki nefndina og við höfum neitað og reynt að leiðrétta ónákvæmar fréttir sem fjalla um slíkt,“ sagði talsmaður fyrirtækisins. 

Bezos hafi afvegaleitt löggjafarvaldið

Fimm fulltrúar þingnefndar segja að Jeff Bezos og aðrir stjórnendur Amazon hafi afvegaleitt löggjafarvaldið og kunna að hafa logið undir eið, að því er fram kemur í bréfi sem barst Andy Jassy í dag, ​​en hann tók við af Bezos sem forstjóri Amazon í júlí, að því er segir á vef NPR.

Þingmennirnir fimm sögðu áreiðanlegan fréttaflutning Reuters og annarra fréttamiðla vera í beinni mótsögn við svarinn eið æðstu stjórnenda Amazon, þar á meðal Bezos. En Bezos hafði sagt að fyrirtækið bannaði starfsmönnum að nota gögn um einstaka seljendur til að hagnast á eigin vörumerkjum Amazon. 

„Í besta falli staðfestir þessi fréttaflutningur að forsvarsmenn Amazon hafi afvegaleitt nefndina. Í versta falli sýnir það að þeir kunna að hafa logið að þinginu sem er hugsanlega brot á hegningarlögum,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka