Verkfalli afstýrt í Hollywood

AFP

Stéttarfélag starfsmanna í kvikmyndaiðnaði gerði á laugardag bráðabirgðasamkomulag við fulltrúa bandarísku kvikmyndaveranna og afstýrði þannig verkfalli sem átti að hefjast í dag, mánudag, og hefði lamað kvikmyndaframleiðslu í Hollywood.

Undir stéttarfélagið IATSE falla um 60.000 manns sem starfa á bak við tjöldin í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en félagsmenn hafa kvartað undan miklu álagi og löngum vinnudögum í kjölfar þeirrar röskunar sem varð á sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði Hollywood í kórónuveirufaraldrinum. Hefur uppsöfnun verkefna orðið til þess að sumir stéttarfélagar hafa neyðst til að vinna fjórtán stunda vinnudag að því er Reuters greinir frá.

Krafðist IATSE þess að settar yrðu skýrari reglur um styttri vinnutíma, matarhlé og hvíldartíma, og að laun vegna vinnu fyrir þætti streymisveitufyrirtækja yrðu hækkuð en fyrir tíu árum var samið um lægri taxta fyrir slík störf þegar streymi kvikmynda og þátta yfir netið var að byrja að taka á sig mynd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka