Svo virðist sem líkamsleifar hafi fundist í dag við leitina að Brian Laundrie, fyrrverandi unnusta Gabby Petito sem fannst látin í september, en hans hefur verið leitað í Flórída undanfarnar vikur.
Frá þessu greindi alríkislögreglan FBI síðdegis að staðartíma vestanhafs.
Alríkislögreglufulltrúinn Michael McPherson segir persónulega muni í eigu Laundrie einnig hafa fundist á svæðinu, sem er nærri borginni Venice í Flórída.
„Fyrr í dag fundu rannsakendur það sem virðast vera mannsleifar ásamt persónulegum munum á borð við bakpoka og stílabók í eigu Brians Laundrie,“ sagði McPherson við blaðamenn í kvöld.
Munirnir hefðu fundist á svæði sem þar til nýlega hefði verið þakið vatni. Vettvangurinn verður rannsakaður áfram næstu daga.