Vladimír Pútín Rússlandsforseti mun ekki taka þátt í COP26-loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í Glasgow í Skotlandi.
Rússnesk stjórnvöld greina frá þessu. Ekki er gefið upp hvers vegna Pútín verði fjarstaddur, en talsmaður stjórnvalda segir aftur á móti að loftslagsbreytingar séu forgangsmál í Rússlandi.
Þingið hefst 31. október og stendur til 12. nóvember. Markmiðið er að fá þjóðarleiðtoga til að komast að nýju samkomulagi um hvernig draga megi úr hlýnun jarðar. Þykir þessi ákvörðun Rússa ekki til þess fallin að einfalda leiðina að samkomulagi.
Yfir 120 þjóðarleiðtogar hafa staðfest að þeir muni sækja þingið.
Pútín hefur ekki tjáð sig sjálfur um þessa ákvörðun. Hann hafði áður látið þau ummæli falla að hann yrði viðstaddur. Fram kemur á vef BBC að svo virðist sem að það verði í gegnum fjarfundarbúnað.
Rússlandsforseti var með erindi á orkumálaráðstefnu í Moskvu 13. október þar sem hann sagði staða kórónuveirufaraldursins myndi vega þungt í ákvörðun hans varðandi allar ferðaáætlanir.
Faraldurinn hefur leikið Rússa grátt undanfarnar vikur þar sem met hafa verið slegin hvað varðar einstaklinga sem hafa látist af völdum Covid-19. Pútín fyrirskipaði að allir landsmenn myndu fá vikulangt frí á launum frá 30. október til 7. nóvember í þeim tilgangi að reyna að sporna við fjölgun smita. Til að bæta gráu ofan á svart hefur bólusetning gengið afar hægt þar í landi.
Þá kemur til greina að Xi Jinping, forseti Kína, muni einnig sleppa því að mæta á loftslagsþingið, en kínverskir embættismenn segja þó ekki loku skotið fyrir það að þær fyrirætlanir komi til með að breytast.