Borgaryfirvöld í París ætla sér að þróa hjólreiðaleiðir borgarinnar þannig að hún verði að fullu aðgengileg hjólreiðafólki. Sett verða upp vöktuð hjólastæði og börnum kennt að hjóla í grunnskóla.
Þróunin er þáttur í fimm ára áætlun sem lýtur að því að hjólreiðavæða borgina og kemur til með að kosta 250 milljónir evra, en París hefur nú þegar varið 150 milljónum evra í verkefnið.
Lagt verður upp úr því að gera aðgengi inn til Parísar, á hjólum, öruggara. Á vissum svæðum verður umferð gangandi vegfaranda og hjólreiðamanna fullkomlega aðskilin bílaumferð.
Með heimsfaraldrinum spratt fram aukin nýting á hjólreiðastígum í borginni, en margir gripu í hjólið í stað þess að nýta sér almenningssamgöngur, af ótta við að smitast af Covid-19.
Þar með varð ljóst að margir stígarnir stæðu ekki undir þessum aukna fjölda, án þess að öryggi hjólreiðafólksins væri ógnað.
Því hafa borgaryfiröld sett sér markmið að hjólastígar innan Parísar nemi 180 kílómetrum, fyrir lok 2026. Þá er einnig litið til þess að hjólreiðamönnum verði gert kleift að nýta sér einstefnu götur, í gagnstæða átt, sem kæmi til með að bæta 390 kílómetrum við leiðarkerfið.
Önnur hindrun sem hjólreiðafólk stendur frammi fyrir, er hjólastuld. Borgaryfirvöld vilja koma til móts við það með því að setja upp hundrað þúsund vöktuð hjólreiðastæði, fyrir 2026. Þar af yrðu fjörtíu þúsund þeirra í grennd við lestarstöðvar.
Þá verður bundinn endir á bílaumferð í gegnum borgina og umferð á miðsvæðum hennar, minnkuð um helming.
Skólum í París verður einnig gert að innleiða í námskránna sína, að kenna börnum að hjóla, þannig að allir grunnskólanemendur verði orðnir hjólreiðafærir þegar þeir ljúka skólagöngu sinni.
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, verður forsetaframbjóðandi franska Sósíalistaflokksins í komandi kosningum, en hún hefur lagt mikla áherslu á hjólreiðavæðingu borgarinnar.
Skoðanakannanir sýna talsverðan stuðning við hana meðal borgarbúa og vel stæðra hópa í úthverfum þar sem samgöngur inn til Parísar eru greiðar. Hún virðist aftur á móti ekki eiga sama fylgi að fagna á landsvísu.