Mjög líklegt að líkamsleifarnar séu af Laundrie

Brian Laundrie.
Brian Laundrie. AFP

Lögmaður fjölskyldu Brians Laundrie segir mjög líklegt að ætlaðar líkamsleifar sem fundust í Flórída séu hans. Lögregla fann í gær bakpoka og stílabók sem talin er hafa tilheyrt Laundrie nærri því sem virðast vera líkamsleifar.

CNN greinir frá.

Rúmur mánuður er síðan Laundrie hvarf en lögreglan hafði leitað hans vegna gruns um að hann tengdist með einhverjum hætti morðinu á unnustu sinni, Gabby Petito. 

Laundrie hefur ekki verið kærður fyrir morðið á unnustu sinni en hann var ákærður fyrir að hafa notað tvo bankareikninga sem ekki tilheyrðu honum dagana á eftir. 

Foreldrarnir miður sín

Lögmaður Laundri fjölskyldunnar, Steven Bertolino, sagði við CNN að „líkurnar á því að þetta séu líkamsleifar Brians séu miklar.“ Þá bætti Bertolino því við að það væri afar sorglegt fyrir foreldrana að eigur sonar þeirra hafi fundist í grennd við líkamsleifar. 

„Það er augljóst að þau eru miður sín,“ sagði Bertolino.

Rannsókn á andláti Petito stendur enn yfir en hún var kyrkt og fannst látin í lok septembermánaðar. Þá hafði hún verið á ferðalagi með Laundrie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert