38 milljónir fá 15.000 kr. „verðbólgugreiðslu“

Eldsneyti kostar skildinginn.
Eldsneyti kostar skildinginn. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa greint frá því að allir landsmenn sem eru með minna 2.000 evrur í tekju á mánuði, sem samsvarar um 300.000 kr., muni fá 100 evru eingreiðslu, um 15.000 kr. Þetta er gert til að létta undir landsmönnum á tímum þess að orku- og eldsneytisverð hefur rokið upp á við. 

„Verðbólgugreiðslan“ mun renna til um 38 milljóna Frakka með sjálfkrafa hætti. Einnig til þeirra sem hvorki aka bifreiðum eða vélhjólum. Fyrstu greiðslurnar munu fara til starfsmanna einkafyrirtækja í seinni hluta desember. 

Opinberir starfsmenn, námsmenn og lífeyrisþegar munu fá sínar greiðslur snemma á næsta ári. 

Upphæðin er skattfrjáls og að sögn Jean Castex, forsætisráðherra landsins, þá mun þessi aðgerð kosta ríkisstjórnina 3,8 milljarða evra, eða um 570 milljarða kr. Hann segir að þetta sé mun ódýrari aðgerð að ráðast í fremur en að lækka eldsneytisgjaldið. 

Macron hyggst endurnýja umboð sitt sem forseti Frakklands eftir hálft …
Macron hyggst endurnýja umboð sitt sem forseti Frakklands eftir hálft ár. AFP

Víða í Evrópu ríkir mikil reiði og óánægja eftir að orkukostnaður rauk upp úr öllu valdi. Ástæðuna má að mestu rekja til gríðarlegrar eftirspurnar frá fyrirtækjum sem eru að komast aftur á lappirnar í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Vandinn á orkumarkaði hefur skapað erfiðleika víða, m.a. valdið mikilli röskun á því að koma vörum á milli staða, en víða er skortur á eldsneyti og öðrum neysluvörum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hyggst endurnýja umboð sitt í forsetakosningum sem fara fram eftir hálft ár og orkuvandinn getur gert honum erfitt um vik og leitt til fjölmennra mótmæla meðal almennings. 

Árið 2018 komu svokallaður gulvestungar saman til að mótmæla háum eldsneytisgjöldum, en mótmæli þeirra urðu kveikjan að mun viðameiri mótmælum sem beindust gegn stjórnvöldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert