Bandaríkin muni verja Taívan

Biden á borgarafyndinum í gær.
Biden á borgarafyndinum í gær. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á borgarafundi CNN í gær að Bandaríkin muni verja Taívan ef Kína ræðst á landið. Um er að ræða breytt viðhorf í utanríkisstefnu bandaríkjanna, samkvæmt BBC.

Talsmaður Hvíta hússins sagði þó eftir að Biden lét ummælin falla að ekki væri um stefnubreytingu að ræða. 

Bandarísk lög kveða á um að Bandaríkin aðstoði Taívan við að verja sig ef þess gerist þörf. Það hefur þó, til þessa, verið óljóst hvað Bandaríkin myndu í raun gera ef Kína myndi ráðast á Taívan. Hefur þetta verið sagt „stefnumótandi tvíræðni.“ Bandaríkin hafa ekki viðurkennt Taívan sem sjálfstætt ríki.

Yfirvöld í Kína hafa ekki svarað ummælum Bidens. Xi Jinping, forseti Kína, lýsti því yfir á dögunum að hann hygðist sameina Taívan og Kína að nýju. Gripið yrði til valdbeitingar ef þess gerðist þörf. 

Biden var spurður í gær hvort hann gæti heitið því að vernda Taívan og hvað hann myndi gera til þess að halda í við herþróun Kína. 

Talsmaður Hvíta hússins ósammála forsetanum

Við því sagði Biden: „Já, og já.“ Hann bætti því við að það væri engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvort Kína yrði valdameira en Bandaríkin vegna þess að „Kína, Rússland og önnur ríki heims vita að við eigum öflugasta herinn í allri heimssögunni.“

Biden var spurður í annað sinn hvort Bandaríkin myndu koma Taívan til varnar ef af árás frá Kína yrði. Biden svaraði: „Já, við erum skuldbundin til þess.“

Talsmaður Hvíta hússins virtist síðar reyna að draga ummæli forsetans til baka og sagði bandarískum fjölmiðlum að Bandaríkin væru ekki að kynna neina breytingu á stefnu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert