Recap Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, skipaði utanríkisráðherra sínum í dag að vísa sendiherrum tíu ríkja úr landi, þar á meðal allra Norðurlandanna utan Íslands, eftir að þeir fordæmdu fangelsisvist stjórnarandstöðuleiðtogans Osman Kavala.
Þess ber að geta að Ísland á ekki sendiherra í Tyrklandi.
Osman Kavala er 64 ára og fæddur í París og hefur setið í fangelsi án dóms síðan árið 2017. Fangelsisvist hans er talin tákn um vaxandi óþol Erdogans gagnvart pólitískum andstæðingum.
Stigmagnandi deilur við vestrænu ríkin, sem flest eru einnig bandamenn landsins í NATO, marka endann á skelfilegri viku fyrir Tyrkland, þar sem landið var sett á alþjóðlegan svartan lista yfir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ásamt því að gjaldmiðill landsins hrundi af ótta við efnahagslega óstjórn og hættu á óðaverðbólgu.
Orð forsetans um Kavala í vikunni ollu titringi á mörkuðum þar sem óttast var við að stigmagnandi árekstrar við Vesturlöndin yrðu til þess að gengi lírunnar, gjaldmiðils Tyrklands, myndi lækka enn frekar gagnvart bandaríkjadal.
Sendiherrarnir tíu sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á mánudag þar sem þeir sögðu að áframhaldandi varðhald yfir Kavala „varpi skugga“ á Tyrkland.
Kavala hefur verið gefið að sök að tengjast ýmsum mótælum gegn stjórnvöldum árið 2013 og misheppnuðu valdaráni hersins árið 2016.
Í yfirlýsingu sendiherranna hvöttu Bandaríkin, Þýskaland, Kanada, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Nýja Sjáland, Noregur og Svíþjóð til „réttlátrar og skjótrar úrlausnar í máli [Kavala]“.
„Þeir verða að fara héðan daginn sem þeir þekkja ekki lengur Tyrkland,“ sagði Erdogan í dag.