Kveiktu á kertum og minntust Hutchins

Kveikt á kertum við mynd af Halynu Hutchins.
Kveikt á kertum við mynd af Halynu Hutchins. AFP

Líkvaka var haldin í Albuquerque í Bandaríkjunum í gær til að syrgja kvikmyndatökustjórann Halynu Hutchins, sem lést þegar leikarinn Alec Baldwin skaut úr byssu á tökustað.

Einstaklingar úr kvikmyndaiðnaðinum voru meðal þeirra sem mættu á vökuna og kveiktu á kertum fyrir Halynu, að því er segir í umfjöllun BBC.

„Hún var svo dýnamísk og þegar eitthvað svona gerist, þá er það hrikalegt fyrir okkur öll,“ sagði Sandie Kay, sem starfar við kvikmyndagerð í Albuquerque, við Reuters fréttastofuna á líkvökunni í gær. 

Kallað eftir frekari öryggisráðstöfunum 

Sumir á vökunni héldu á skiltum þar sem kallað var eftir frekari öryggisráðstöfunum á tökustöðum.

„Ég held að þetta sé sannarlega áminning um byssuöryggi á tökustað og ég styð þá hugmynd að banna alvöru byssur á tökustað ef það er mögulegt,“ sagði kvikmyndastarfsmaðurinn Cheryl Lowe við Reuters.

Viðstaddir kölluðu eftir frekari öryggisráðstöfunum á kvikmyndatökusettum.
Viðstaddir kölluðu eftir frekari öryggisráðstöfunum á kvikmyndatökusettum. AFP

Samkvæmt dómsgögnum vissi aðstoðarleikstjórinn Dave Halls ekki að byssan væri hlaðin og gaf til kynna að hún væri það ekki með því að hrópa „köld byssa.“ Leikstjórinn Joel Souza, sem stóð fyrir aftan Hutchins særðist einnig í atvikinu.

Samkvæmt New York Times og Los Angeles Times var að minnsta kosti tvisvar sinnum óvart skotið með byssu á tökustaðnum nokkrum dögum fyrir atvikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert