Byssa Baldwins hafði verið notuð við skotæfingar

Alec Baldwin.
Alec Baldwin. AFP

Starfsfólk í tökuliði nýju kvikmyndar Alec Baldwin höfðu notað leikmunabyssuna í skotæfingar, með hefðbundnum skotfærum, fyrr um morguninn áður en voðaskotið varð er kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum kvikmyndarinnar. 

Alec Baldwin skaut úr byssu á leiksetti á fimmtudaginn, með þeim afleiðingum að kvikmyndatökumaðurinn Halyna Hutchins lést. Leikarinn taldi sig vera að skjóta úr byssu með púðurskotum sem væri örugg á leiksettinu.

Þá kemur fram í tilkynningunni að aðstoðarleikstjórinn sem afhenti Baldwin byssuna, sem síðar reyndist vera hlaðin, hafði áður verið rekinn úr fyrra verkefni vegna brota á öryggisreglum varðandi vopn. 

„Dave Halls [aðstoðarleikstjórinn] var rekinn úr verkefninu „Freedom's Path“ árið 2019 eftir að starfsmaður hlaut minniháttar áverka þegar óvænt hljóp af byssu,“ sagði framleiðandi kvikmyndarinnar við fréttastofu AFP. 

„Halls var fjarlægður af tökustað strax eftir að hljóp af leikmunabyssunni. Framleiðsla hófst ekki aftur fyrr en Dave hafi yfirgefið tökustað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert