Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn Súdans, þriðja stærsta ríkis Afríku og þess tíunda fjölmennasta, voru handteknir í nótt í því sem talið er vera valdarán.
Þar á meðal er forsætisráðherrann Abdallah Hamdok og að minnsta kosti fjórir ráðherrar í ríkisstjórn.
Í frétt BBC segir að hermenn, í óeinkennandi klæðnaði, hafi brotist inn á heimili þeirra og rænt þeim. Ekki er vitað hvar ráðherrarnir eru niðurkomnir. Þar að auki er ekki vitað hver stendur að baki valdaráninu, þótt flest bendi til þess að yfirmenn súdanska hersins séu þar að verki.
Súdanski herinn hefur ekki enn tjáð sig um framvindu mála en lýðræðissinnar í landinu hafa flykkst út á götur til mótmæla.
Leiðtogar hersins og leiðtogar lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar hafa elt saman grátt silfur síðan hinum þaulsætna Omar al-Bashir var komið frá völdum fyrir tveimur árum. Í kjölfar þess tóku lýðræðislega kjörin stjórnvöld við stjórnartaumunum í Súdan.
Heimildamenn BBC í Khartoum, höfuðborg Súdans, segja að netið liggi niðri og á samfélagsmiðlum má sjá myndir af mótmælendum kveikja í hinu og þessu lauslegu á götum borgarinnar.
Súdanski herinn hefur verið sendur til Khartoum til að stilla til friðar og þá hefur alþjóðaflugvellinum í Khartoum nú verið lokað.