Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna gagnrýndi í dag fyrirætlanir Ísraels um frekari uppbyggingu landtökubyggða á hernumdum svæðum. Fréttaveitan AFP hefur eftir Ned Price að Bandríkin séu mjög mótfallin áætlunum stjórnvalda í Ísrael um byggingu 1.355 heimila á Vesturbakkanum.
„Við höfum miklar áhyggjur af áætlunum ísraelsku ríkisstjórnarinnar um að byggja þúsundir heimila á landtökubyggðum,“ sagði talsmaðurinn Price við blaðamenn í dag.
Yfirlýsingin er einhver harðorðasta gagnrýni sem hefur borist frá Bandaríkjunum síðustu árin í garð Ísraels. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var enda jákvæður í garð landtökubyggða og landtöku Ísraela.
„Við erum mjög mótfallin fjölgun byggða á landtökusvæðum en það er gengur í berhögg við markmiðið um að minnka spennu á svæðinu. Auk þess er áætlunin til þess fallið að grafa undan tveggja ríkja stefnunni,“ er haft eftir Price sem vildi þó ekki ganga svo langt að segja uppbygginguna setja milliríkjasamstarf Ísraels og Bandaríkjanna í hættu.
Ráðuneyti húsamála í Ísrael kynnti á sunnudag fyrirætlanir um uppbygginu 1.355 íbúða á Vesturbakkanum sem er hluti Palestínu sem Ísrael hernam í Sex daga stríðinu árið 1967. Forsætisráðherra Palestínu hefur kallað eftir inngripi ráðamanna í Bandaríkjunum vegna fyrirætlananna.