Núverandi skuldbindingar óljósar og ófullnægjandi

Í skýrslu sem tekin var saman af umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna …
Í skýrslu sem tekin var saman af umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna kemur fram að núverandi skuldbindingar þjóða dugi skammt til að sporna gegn hækkun meðalhitastigs jarðar. AFP

Útblástur koldíoxíðs þarf að minnka sjöfalt á við það sem núverandi ráðagerðir landa kveða á um ef íbúar heims vilja koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um 1,5 gráðu.

Þetta kemur fram í skýrslu umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Á alþjóðavísu hafa 120 lönd skuldbundið sig til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til að draga úr loftslagsbreytingum. Í skýrslu SÞ segir að núverandi skuldbindingar þjóða í baráttunni gegn loftslagsváinni miði við að draga úr útblæstri um 7,5% fyrir árið 2030. Það sé hins vegar ekki nóg þar sem að útblástur yrði að minnka um allt að 55% til að halda hitastiginu í skefjum og forðast hættulegar afleiðingar loftslagsbreytinga.

Greining umhverfisstofnunar segir einnig að höldum við áfram á sömu braut megi gera ráð fyrir að meðalhitastig hækki um 2,7 gráður á næstu árum, með tilheyrandi áhrifum á lífríki jarðar. Það er þó enn von en ef langtíma ráðagerðir landa um kolefnisjöfnun stenst er möguleiki að koma í veg fyrir þessa hækkun.

Í rannsókn Alþjóðaveðurfræðistofnuninnar (WMO) kemur einnig fram að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hafi náð hámarki á síðasta ári, þrátt fyrir heimsfaraldurinn.

Skuldbindingar þjóða óljósar

Í frétt BBC segir að aðalritari Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres telji ástandið í loftslagsmálum endurspegla vanrækslu af hálfu þjóðarleiðtoga. Kallar hann eftir því að stöðunni verði snúið við í átt að umhverfisvænni framtíðar og segir hann enn von þó ástandið líti illa út. 

Yfir 50 þjóðir stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Í greiningu umhverfisstofnunar SÞ kemur fram að ef þjóðir standi við þá skuldbindingu gæti það dregið úr hækkun meðalhitastigs um 0,5 gráður fyrir árið 2100. Þetta myndi lækka hitastigshækkunina úr 2,7 gráðum niður í 2,2 gráður.

Höfundar skýrslunnar telja þó vandamál hve tvíræð plön og markmið þjóðanna eru í þessum málum, sérstaklega hjá ríkustu 20 þjóðunum. Mikið af þeim langtíma markmiðum sem kveðið er á um þykja nokkuð óljós og hefur framkvæmd þeirra í mörgum tilfella verið seinkað þar til eftir 2030. Vekur þetta upp efasemdir um hvort hægt verði raunverulega að stefna að kolefnishlutleysi fyrir 2050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka