Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, kynnti í dag endurskoðaða fjárhagsáætlun sem hljóðar upp á 1,75 billjónir dala, sem samsvarar um 225 billjónum kr., sem forsetinn kveðst viss um að muni njóta stuðnings meðal demókrata. Upphæðin mun að mestu renna til félagsmála.
Niðurstaðan þykir sigur fyrir Biden en undanfarnar vikur hafa staðið yfir miklar deilur og viðræður um bandarísku fjárlögin. Biden heldur nú til Glasgow þar sem hann mun verða viðstaddur loftslagsþingið.
Upphaflega reyndi Biden að fá stuðning í öldungadeild Bandaríkjaþings en án árangurs, þar sem demókratar hafa mjög nauman meirihluta.
Hátt settir embættismenn innan Bandaríkjastjórnar telja að útspil forsetans, sem kom á síðustu stundu, sé tilboð sem sé of gott fyrir demókrata að hafna.
Biden hyggst kynna ramma samkomulagsins fyrir leiðtogum demókrata. Í framhaldinu mun hann ávarpa bandarísku þjóðina frá Hvíta húsinu áður en hann heldur á flugvöllinn til að fljúga til Skotlands.
Talsmenn Hvíta hússins segja að fjármunirnir muni renna til menntamála, barnagæslu, hreinna orkugjafa og annarra félagsmála.
Upphaflega ætlaði Biden sér að verja 3,5 billjónum dala sem vinstrisinnaðasti hluti demókrata studdi, að því er segir í umfjöllun AFP. Þrátt fyrir að upphæðin sem Biden kynnir í dag sé mun lægri þá þykir þetta vera sigur fyrir forsetann.
Allt leit út fyrir að frumvarpið yrði að engu í kjölfar deilna innan raða Demókrataflokksins sem stóðu yfir vikum saman, en einnig var tekist á um að setja 1,2 billjónir dala í nauðsynlega innviðauppbygginu.
Biden kveðst viss um að þingið muni samþykkja frumvarpið, en það er í höndum Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að taka ákvörðun um hvenær þingið mun ganga til atkvæðagreiðslu.