Bretar og Frakkar skila stolnum munum til Afríku

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að Frakkar ætli að skila sæg stolinna muna, sem franskar hersveitir stálu frá því sem í dag er Afríkuríkið Benín, á tímum franskra yfirráða í landinu.

Þetta sagði hann í ávarpi eftir að honum höfðu verið sýndir ýmsar menningarminjar Benína á Quai Branly-Jacques Chirac-safninu í París.

Flutningur munanna mun eiga sér stað innan tveggja vikna, segir Macron, og bætir við að Frakkar vilji halda áfram að skila stolnum menningarminjum til fyrrum nýlenda sinna.

Cambridge-háskóli skilaði bronsstyttu

Þetta ætlar Cambridge-háskóli í Bretlandi einnig að gera. Í athöfn sem haldin var í gær var bronsstyttu skilað til sinna réttmætu eigenda í Nígeríu.

Háskólinn er fyrsta stofnunin í Bretlandi sem lætur kné fylgja kviði og skilar stolnum minjum aftur til fyrrum nýlenduþjóða.

Abba Isa Tijani, forstöðumaður stofnunar Nígeríu um söfn og minjar, segir að Nígeríumenn verði hæstánægðir með að sjá listmuni forfeðra sinna á söfnum í sínu eigin heimalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert