Er langafabarn Sitjandi tarfs

Sitjandi tarfur árið 1885.
Sitjandi tarfur árið 1885. AFP

Maður sem sagðist vera langafabarn Sitjandi tarfs, eða Sitting Bull, hefur fengið staðfestingu á því eftir að erfðaefni úr lokki indíánahöfðingjans fræga var greint.

Maðurinn er 73 ára og heitir Ernie LaPointe og kvaðst hann vera skyldur honum í móðurætt.

Erfðavísindin eru sögð hafa með þessu í fyrsta sinn staðfest fjölskyldutengsl á  milli sögufrægrar persónu og manneskju sem er á lífi.

Sitjandi tarfur, sem hét réttu nafni Tatanka-Iyotanka, var uppi frá 1831 til 1890. Hann leiddi 1.500 hermenn Lakota í frægri orrustu sem kallast Bardaginn við Little Bighorn árið 1876. Bandaríski hershöfðinginn George Custer féll í valinn ásamt hópi hermanna.

Sitjandi tarfur var skotinn til bana árið 1890 þegar lögreglan ætlaði að handtaka hann. 

Lokkurinn sem var notaður til að greina erfðaefnið.
Lokkurinn sem var notaður til að greina erfðaefnið. AFP

Hægt var að greina erfðaefnið með nýrri tækni þar sem hægt er að fá erfðafræðiupplýsingar úr mjög litlu sýni erfðaefnis. Prófessorinn Eske Willerslev við Cambridge-háskóla og erfðafræðimiðstöð Lundbeck-stofnunarinnar í Danmörku stóðu á bak við verkefnið með aðstoð hóps vísindamanna.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Science Advances. Framvegis verður hægt að nota samskonar aðferðir til að rannsaka aðrar sögufrægar persónur, þar á meðal útlagann Jesse James eða rússnesku keisarafjölskylduna ef gamalt erfðaefni er til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert