Kínverjar leggja bann við byggingu skýjakljúfa

Hamar og sigð, einkennismerki kínverska kommúnistaflokksins, utan á skýjakljúf í …
Hamar og sigð, einkennismerki kínverska kommúnistaflokksins, utan á skýjakljúf í Sjanghæ á 100 ára afmæli flokksins fyrr á þessu ári. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa lagt bann við byggingu skýjakljúfa í smærri borgum landsins til þess að sporna gegn byggingu óþarfa húsakosts.

Kínverskar borgir með íbúafjölda undir þremur milljónum manna verður þannig bannað að reisa skýjakljúfa hærri en 150 metra á hæð. Til gamans má geta að Hallgrímskirkja, ein hæsta bygging Íslands, er 74 metra há.

Borgum með hærri íbúafjölda en þrjár milljónir manna verður bannað að reisa skýjakljúfa hærri en 250 metrar á hæð. Nú þegar er í gildi bann á landsvísu gegn byggingu skýjakljúfa yfir 500 metra.

Lífstíðarrefsing fyrir brot á nýja banninu

Í Kína má finna nokkrar af hæstu byggingum heims eins og Sjanghæ-turn, sem er 632 metra hár, og hið 599 metra háa Ping An fjármálasetur í Shenzen-borg.

Yfirvöld í Kína segja að þörf geti verið fyrir skýjakljúfa í allra fjölmennustu borgum landsins en í þeim flestum er engin þörf fyrir slíkt, nóg sé til af landi.

Kínverjar hafa enda að undanförnu reynt að sporna gegn „óþarfa byggingaframkvæmdum“, eins og það er orðað í frétt BBC um málið. Fyrr á þessu ári var lagt blátt bann í Kína gegn „ljótum arkitektúr“.

„Við erum á þeim stað að fólk virðist vera í óða önn að byggja eitthvað sem síðar meir mun eiga stað í sögubókunum,“ segir Zhang Shangwu, deildarforseti Tongji-háskóla arkitektúrs og borgarskipulags.

„Öllum byggingum virðist vera ætlað að verða kennileiti og verktakar og borgarskipulagsfræðingar virðast seilast ansi langt í skringilegheitum til þess að ná þeim markmiðum sínum,“ bætir hann við.

Þeir sem brjóta gegn nýja banninu munu þurfa að „axla ábyrgð til lífstíðar“ eins og það er orðað í tilkynningu kínverskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert