Nammiauglýsingar ætlaðar börnum bannaðar

Krakki borðar sykrað morgunkorn.
Krakki borðar sykrað morgunkorn. Ljósmynd/Colourbox

Spánverjar ætla að banna auglýsingar þar sem börn eru hvött til að neyta sykurríkrar fæðu og drykkja, þar á meðal súkkulaðistykkja og gosdrykkja.

Alberto Garzon, ráðherra neytendamála á Spáni, greindi frá þessu. Bannið tekur gildi á næsta ári og er því ætlað að hægja á vaxandi offitu í landinu.

Bannið snýr að auglýsingum sem birtast í sjónvarpi, útvarpi, á netinu og á farsímaöppum.

„Börn eru viðkvæmur neytendahópur og það er skylda okkar að vernda þau frá auglýsingum,“ sagði hann og bætti við að Spánverjar væru að feta í fótspor Bretlands, Noregs, Portúgals og fleiri Evrópuþjóða með banninu.

Um eitt af hverjum þremur börnum á Spáni eru of þung, sem er mikil aukning frá árinu 1984 þegar 3% barna voru of þung í landinu.

„Auglýsingar eru einn af orsakavöldunum,“ sagði ráðherrann í tísti á Twitter.

Á heimsvísu eru rétt rúmlega 18% barna og unglinga frá 5 til 19 ára í ofþyngd. Árið 1975 nam fjöldinn fjórum prósentum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert