Þjóðverji dæmdur fyrir að njósna fyrir Rússa

Frá fundi í þýska þinghúsinu.
Frá fundi í þýska þinghúsinu. AFP

Þýskur karlmaður hlaut í dag tveggja ára skilorðsbundin dóm fyrir að hafa afhent starfsmönnum rússnesku leyniþjónustunnar grunnteikningar af byggingum í eigu þýska þingsins. Þetta gerði maðurinn er hann starfaði fyrir öryggisfyrirtæki. 

Maðurinn, sem er aðeins nefndur á nafn sem Jens F., er 56 ára gamall. Hann var sakfelldur fyrir að afhenda fulltrúa rússneska hersins, sem var hjá rússneska sendiráðinu í Þýskalandi, geisladisk árið 2017 þar sem var að finna yfir 300 skrár sem sýndu grunnteikningar bygginga sem hýsir starfsemi þingsins. 

Grunur leikur á að rússneski fulltrúinn hafi verið starfsmaður rússnesku GRU-leyniþjónustunnar. Jens F. starfaði þá fyrir öryggisfyrirtæki sem vann í verktöku fyrir þýska þingið. 

Fram kemur í þýskum fjölmiðlum, að Jens F. hafi yfir yfirmaður í skriðdrekadeild í austurþýska hernum. Hann hafi ennfremur starfað óformlega fyrir alræmdu austurþýsku leynilögregluna, Stasi. 

Ákæruvaldið fór fram á að maðurinn yrði dæmdur í tveggja ára og níu mánaða fangelsi á meðan verjendur mannsins kröfðust sýknu á þeim grundvelli að engin sönnun lægi fyrir að hann hefði komið umræddum upplýsingum í hendur Rússa. 

Friedrich Humke, verjandi Jens F., hélt því fram að ákæruvaldið hefði einvörðungu byggt sinn málflutning á fortíð Jens, störfum hans og tengslum við Austur-Þýskaland, sem var þá undir stjórn kommúnista. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert