Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði Emmanuel Macron í dag að Bandaríkin hefðu borið sig klunnalega að við samþykki kafbátasamnings um varnarbandalagið AUKUS.
Aðdragandinn var sá að Bretar, Bandaríkjamenn og Ástralir gengust í varnarbandalag í september sem rifti samningum Ástrala við Frakka um kaup á kafbátum. Málið vakti mikla reiði í Frakklandi og utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, sakaði ríkin um tvískinnung og trúnaðarbrest.
Macron sagði að það væri mikilvægt að „horfa fram veginn“ en leiðtogarnir funduðu í sendiráði Frakklands í Vatíkaninu.
„Þetta var klunnalega gert. Ég stóð í þeirri trú að Frakkar hefðu verið látnir vita löngu áður að þeirra samningur væri úr sögunni,“ sagði Biden í dag.
Fundurinn með Macron var fyrsti fundur dagsins hjá Biden sem fundaði líka með Frans páfa og hrósaði honum fyrir frambærilega framgöngu í baráttunni við fátækt, loftslagsvánna og heimsfaraldur Covid-19.