Cuomo ákærður fyrir kynferðislegt áreiti

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AFP

Fyrrverandi ríkisstjóri New-York-ríkis, Andrew Cuomo, var í gær ákærður fyrir að hafa gripið í brjóst aðstoðarkonu sinnar og er honum gefið að sök að hafa gert það í þeim tilgangi að „niðurlægja konuna og svala sínum kynferðislegu löngunum“, eins og það er orðað í ákærunni.

Í frétt New Tork Times segir að ákæran byggi á sögu einnar af alls 12 konum sem sökuðu Cuomo um kynferðislegt áreiti. Sögum allra kvennanna voru gerð skil í skýrslu ríkissaksóknara í New York, sem leiddi til afsagnar ríkisstjórans í ágúst síðastliðnum.

Stuðningsmenn Cuomo sneri enda baki við honum þegar ásakanirnar komu fram á hendur honum og var Joe Biden Bandaríkjaforseti meðal þeirra sem kölluðu eftir afsögn hans. 

Cuomo reyndi sjálfur að verja gjörðir sínar með því að vísa til uppruna síns, en Cuomo á ættir að rekja til Ítalu. Skemmst er frá því að segja að þær afsakanir féllu í grýttan jarðveg vestra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert