Dæmd í fangelsi vegna myndar af „munngælum“

Saint Basil-kirkjan á Rauða torginu.
Saint Basil-kirkjan á Rauða torginu. AFP

Rússneskur dómstóll hefur dæmt prakkara á samfélagsmiðlum og kærustu hans í 10 mánaða fangelsi fyrir að birta ljósmynd á Instagram þar sem þau hermdu eftir munngælum skammt frá Rauða torginu.

Héraðsdómstóll í Moskvu, höfuðborg Rússlands, sagði að Ruslani Murodzhonzoda, frá Tajikistan, og Anastasia Chistova hafi verið fundin sek um að misbjóða trúuðu fólki með athæfi sínu.

„Anastasia Chistova og Ruslani Murodzhonzoda frömdu athæfi á meðal almennings sem sýndi greinilega vanvirðingu þeirra gagnvart samfélaginu,“ sagði í yfirlýsingu dómstólsins.

AFP

Mikill hrekkjalómur

Murodzhonzoda er hrekkjalómur sem er duglegur við að birta alls konar hrekki á samfélagsmiðlum, á meðan Christovu er lýst af fjölmiðlum sem Instagram-fyrirsætu.

Þau voru handtekin seint í september eftir að hafa birt mynd sem sýndi Christovu krjúpa fyrir framan hann skammt frá dómkirkju Saint Basil á Rauða torginu.

Þau voru í haldi lögreglunnar í tíu daga eftir að hafa birt myndina og baðst Murodzhonzoda afsökunar á birtingunni.

Vladimir Pútín.
Vladimir Pútín. AFP

„Algjör bilun“

Eftir að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hóf sitt þriðja kjörtímabil árið 2012 hefur hann lagt sig fram við að verja íhaldssöm gildi og kynna Rússland sem andstæðu Vesturlanda.

Það sama ár voru tveir liðsmenn hljómsveitarinnar Pussy Riot dæmdir til tveggja ára vistar í fangabúðum fyrir að mótmæla nánum tengslum Pútíns og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar. Ekki er langt síðan rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní var dæmdur í fangelsi.

„Þetta er bilun, algjör bilun,“ sagði náinn samstarfsmaður Navalní, Leoniod Volkov, um mál parsins á Twitter. „Þau gerðu ekkert af sér,“ bætti hann við. „Þetta er bara mynd.“

Mannréttindahópurinn Mermorial sagði fyrr í vikunni að fjöldi pólitískra fanga í Rússlandi hafi hækkað úr 362 í fyrra í 420 í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert