Bandaríski rapparinn William Junior Maxwell II, betur þekktur sem Fetty Wap, var ákærður í dag fyrir aðild sína að skipulagðri sölu á hörðum fíkniefnum en hann er sakaður um að hafa starfað sem endurdreifingaraðili.
Maxwell var handtekinn á Citi Field hafnaboltaleikvanginum í Queens í gær þar sem hann átti að koma fram á Rolling Loud tónlistarhátíðinni. Rapparinn fer fyrir dómstóla seinna í dag og ef hann verður sakfelldur gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm í fangelsi.
Fimm aðrir voru einnig ákærðir vegna málsins fyrir sölu og dreifingu fíkniefna í Long Island og New Jersey, að því er fram kemur í yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins.
Samkvæmt málflutningi saksóknara eiga sakborningarnir að hafa flutt fíkniefni frá Vesturströnd Bandaríkjanna til New York milli júní 2019 og júní 2020. Var þetta m.a. gert með póstþjónustu auk þess sem ökumenn á þeirra vegum fóru keyrandi á milli með efni geymd í földum rýmum innan ökutækisins. Var fíkniefnunum síðan dreift til eiturlyfjasala sem seldu þau í Long Island og New Jersey.
Um 1,5 milljón Bandaríkjadala, eða hátt í 200 milljónir íslenskra króna, voru gerð upptæk í reiðufé, ásamt 16 kílóum af kókaíni, tveimur kílóum af heróíni, byssum og fjöldann allan af fentanyl töflum.