„Heimska“ að vilja ekki minnka kolefnissporið

Schwarzenegger hefur reynt að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess …
Schwarzenegger hefur reynt að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að minnka kolefnissporið. AFP

Arnold Schwarzenegger, Hollywood-stjarna og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, segir þjóðarleiðtoga sem fullyrða að það að berjast gegn loftslagsbreytingum hafi slæm áhrif á efnahagslífið, annað hvort „heimska eða ljúga.“ Þetta kom fram í viðtali við hann á BBC vegna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26).

Schwarzenegger sagði að það myndi þvert á móti hafa jákvæð áhrif á efnahagslíf heimsins að minnka kolefnisporið. Þá sagði hann það að draga úr neyslu á kjöti þýddi engar fórnir. Hvað hann sjálfan varðaði hefði það að draga töluvert úr kjötneyslu haft jákvæð áhrif á heilsufarið. Samkvæmt hjartalækninum hans hefði hjartaslagæðin hætt að þrengjast eftir að hann fór að borða meira grænmeti í staðinn fyrir kjöt.

Á meðan Schwarzenegger gegndi stöðu ríkisstjóra á árunum 2003 til 2011 varð hann mikill talsmaður hreinna lofts og endurnýjanlegrar orku. Hann setti markmið um að draga úr útblæstri og losun gróðurhúsalofttegunda.

Hann benti á að blómstrandi efnahagslíf í Kaliforníu sýndi það og sannaði að það draga úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið héldist í hendur við bættan efnahag. „Þeir eru lygarar, þeir eru heimskir. Eða þeir vita ekki hvernig á að gera þetta. Við gátum fundið út úr því og þetta snýst bara um að hafa kjark til að gera það,“ sagði hann og vísaði til þeirra leiðtoga sem sjá ekki hag í því að minnka kolefnissporið.

Síðan hann lét af embætti hefur hann notað frægð sína og áhrif til að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi þess að minnka kolefnisporið og hefur komið á fót stofnuninni Schwarzenegger Climate Initiative.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert