Bandarísk kona sem dæmd var fyrir að hafa hjálpað við morð á móður sinni í indónesísku lúxushóteli var látin laus úr fangelsi í dag eftir sex ár á bak við lás og slá.
Í málinu, sem kallað hefur verið „ferðatöskumorðið“ var Heather Mack dæmd í 10 ára fangelsi árið 2015 á meðan kærasti hennar, Tommy Schaefer, fékk 18 ára dóm fyrir morðið á Sheilu von Wiese Mack.
Schaefer barði 62 ára fórnarlambið til bana með ávaxtaskál í kjölfar rifrildis þeirra á fimm stjörnu hóteli þar sem þau dvöldu þrjú saman í St. Regis í Balí.
Parið setti lík konunnar ofan í ferðatösku og reyndi að flýja með það í leigubíl en ákváðu að skilja töskuna eftir er hún var orðin útötuð í blóði.
Mack, sem var ólétt er morðið var framið, var fundin sek um að hafa aðstoðað kærastann sinn við morðið. Yfirmaður kvennadeildar fangelsisins gaf síðan út í dag að hin 25 ára gamla Mack hafi verið látin laus fyrir góða hegðun.
„Þegar henni var sleppt var hún svolítið hneyksluð og tilfinningaþrungin. Hún hikaði og var hrædd en við reyndum að peppa hana upp,“ sagði fangelsismálastjórinn við fréttastofu AFP.
Ekki er ljóst hvort að dóttir Mack, sem nú er orðin sex ára og hefur alist upp á fósturheimili á Balí, verði vísað úr landi á sama tíma og móðir sín.
Lögfræðingur Mack hafði sagt við fréttastofu AFP að Mack vildi ekki að dóttir sinni yrði vísað úr landi og hún svo „hundelt af bandarískum fjölmiðlum“.
Fangelsismálastjórinn sagði Mack hafa mikið breyst á undanförnum árum, hún hafi sótt bænarstundir og fylgt leiðsögnum fangelsisins en að hún hafi einungis fengið að sjá dóttur sína í gegnum fjarskiptaforrit.