Fulltrúar nærri tvö hundruð aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna setja stefnu sína á Glasgow í Skotlandi vegna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst nú á morgun. Leiðtogar G20-hópsins funda í dag og á morgun í Rómarborg og fara þaðan beint á ráðstefnuna.
Mörg augu eru því á Rómarborg enda fundur G20-ríkjanna vísbending um vilja stærstu ríkja heims til þess að takast á við loftslagsvandann. Þá er stefnt að því að ríkin nái saman um hvað þau ætli sér að gera til að stemma stigu við loftslagsvandanum.
Loftslagsmálin hafa aldrei áður verið jafn fyrirferðarmikil á fundi G20-hópsins en nítján ríki auk Evrópusambandsins mynda hópinn. Þá hafa leiðtogar G20-ríkjanna aldrei áður farið rakleiðis af fundi hópsins og á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Leiðtogar yfir 120 ríkja hafa boðað komu sína á loftslagsráðstefnuna (COP26) í Skotlandi.
Um 80% heildarlandsframleiðslu heimsins sem og nærri 80% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda eru á herðum G20-hópsins, en meðal þeirra ríkja sem mynda hópinn eru Kína, Bandaríkin, Indland, Rússland og eins og áður segir, Evrópusambandið.