Hundruð aðgerðasinna komu saman í Glasgow í Skotlandi í dag til að hvetja leiðtoga heimsins að bregðast við loftslagsbreytingum. Á morgun hefst loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna, COP26, í borginni.
Aðgerðasinnar komu víða að, þar á meðal frá nokkrum öðrum Evrópulöndum og höfðu sumir gengið langar vegalengdir til að komast til Glasgow.
„Við viljum sjá áþreifanlegar ráðstafanir og við viljum sjá stuðning við hið hnattræna suður [e. Global south]. Þetta er síðasti séns,“ sagði einn aðgerðasinni sem hafði gengið frá Spáni til Glasgow í samtali við fréttastofu AFP.
Umhverfissamtökin Extinction Rebellion leiddu mótmælin en samtökin hafa komið að mótmælum víðsvegar um heim og vakið mikla athygli.
Skipuleggjendur búast við allt að hundrað þúsund aðgerðarsinnum á mótmæli á föstudaginn næsta.