Angela Merkel, fráfarandi kanslari Þýskalands, segir „ákveðið kæruleysi“ gagnvart Covid-19 einkenna ástandið þar ytra en smit- og dánartíðni hafa farið hækkandi í landinu undanfarið.
Hækkandi innlagnir á sjúkrahús vegna faraldursins „valda mér miklum áhyggjum“ er haft eftir Merkel í fjölmiðlum í Þýskalandi. „Þetta ætti að valda okkur öllum áhyggjum,“ bætti hún við og benti aftur á kæruleysið sem einkenndi ástandið.
Merkel varði einnig rétt þeirra sem ekki vilja láta bólusetja sig til þess að sleppa því en viðurkenndi að henni þætti það miður að þrjár milljónir Þjóðverja, sextíu ára og eldri, væru ekki búnar að fá bóluefni.
„Þetta gæti gert gæfumuninn, bæði fyrir þessa einstaklinga sem og fyrir samfélagið í heild sinni.“
Smit fór að aukast samhliða komu haustsins í Þýskalandi, en heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í dag að 21.543 hefðu smitast og 90 látist síðastliðinn sólarhring.
Um tveir þriðju hlutar þýsku þjóðarinnar eru bólusettir eða um 55,5 milljónir. Heilbrigðisyfirvöld hafa bent á að meirihluti þeirra sem þurfi á spítalainnlögn að halda sé óbólusettur.