Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lýsti yfir vonbrigðum sínum á fundi G20-ríkjanna í dag þess efnis að alþjóðasamfélagið væri ekki tilbúið að viðurkenna rússneska bóluefnið Spútník. En á fundi ríkjanna í dag var samstaða um að gefa enn betur í hvað varðar bólusetningar á alþjóðavísu.
„Þrátt fyrir þessa ákvörðun G20 hópsins þá hafa ekki öll ríki aðgang að bóluefni sem þurfa á því að halda,“ sagði Pútín í myndbandsávarpi á fundinum.
Hann bætti síðar við: „Ástæðan er þá helst ósanngjörn samkeppni og vegna þess að sum ríki, sér í lagi þau sem mynda G20-hópinn, eru ekki tilbúinn að sameiginlega viðurkenna bóluefni og bólusetningarvottorð á alþjóðavísu.“
Spútník hefur ekki enn verið viðurkennt í Evrópusambandinu né í Bandaríkjunum og nú fyrr í mánuðinum ákváðu stjórnvöld í Suður-Afríku að viðurkenna ekki bóluefnið þar í landi þrátt fyrir gífurlega þörf á bóluefni.
Skýringin sem stjórnvöld í Suður-Afríku gáfu upp var sú að notkun Spútník gæti leitt til aukningar á HIV-smitum þar í landi.