Uppruni Covid-19 enn óljós

Mögulega muni uppruni Covid-19 aldrei finnast.
Mögulega muni uppruni Covid-19 aldrei finnast. AFP

Bandarískar leyniþjónustustofnanir segja að mögulega muni uppruni Covid-19 faraldursins aldrei koma í ljós. Þær hafa þó komist að þeirri niðurstöðu að faraldurinn hafi ekki verið búinn til sem líffræðilegt vopn.

Í maí skipaði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, leyniþjónustunni að rannsaka uppruna veirunnar, þar á meðal að skoða tilgátuna um að leki hafi orðið á rannsóknarstofu en Kína hefur alfarið hafnað þeirri tilgátu.

Í uppfærðu mati leyniþjónustustofnana á uppruna Covid-19 kemur fram að líklegt sé að smit hafi borist í menn frá dýr­um eða að veiran hafi orðið til á rannsóknarstofu en ekki eru nægar upplýsingar til að komast að endanlegri niðurstöðu. Kína hefur gagnrýnt skýrsluna.

Leyniþjónustusamfélagið er klofið

Fjórar stofnanir innan leyniþjónustunnar telja litlar líkur á að veiran stafi af sambandi manns við sýkt dýr. Ein stofnun telur líklegt að veiran sé afleiðing slyss á rannsóknarstofu.

Í skýrslunni kom einnig fram að Kína héldi áfram að hindra alþjóðlega rannsókn á Covid-19 og vilji ekki deila upplýsingum um veiruna. 

Kínverska sendiráðið í Washington sagði í yfirlýsingu til fréttastofu Reuters„Bandaríkin treysta frekar á njósnabúnað sinn í stað vísindamanna til að rekja uppruna Covid-19 og það er algjör pólitískur farsi. Við höfum treyst vísindamönnum til að rekja upprunann. Því erum við eindregið á móti því að gera þetta að pólitísku máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka