Bandaríska flugfélagið, American Airlines, felldi niður fleiri en 1200 flug um helgina, rúmlega 12 prósent allra fluga flugvélagsins á laugardag og sunnudag. Kenndi flugvélagið slæmu veðrið og undirmönnun um. The New York Times greinir frá.
Fyrr í mánuðinum urðu verulegar truflanir á flugáætlun Southwest Airlines en flugfélagið varð að fella niður nærri 2000 flug.
Mikill vindur í síðari hluta síðustu viku hafði áhrif á flug á Dallas-Fort Worth alþjóðaflugvelinum. Að sögn David Seymour rekstrarstjóra flugfélagsins leiddi það til þess að flugbrautirnar nýttust ekki sem skyldi og varð því að fella niður flugin. Slæmt veður á öðrum flugleiðum mun einnig hafa haft áhrif en auk þess strönduðu flugáhafnir á röngum stöðum.
„Til að tryggja að við séum að sjá um viðskiptavini okkar og veita áhöfnum okkar tímasetningar með fyrirvara, höfum við aðlagað rekstur okkar síðustu dagana í þessum mánuði með því að aflýsa nokkrum flugum,“ sagði Seymour í bréfi til starfsmanna sinna.
„Við gerum þessa ráðstöfun til að lágmarka óþægindi eins og hægt er. Verið er að endurbóka þá viðskiptavini okkar sem verða fyrir áhrifum af þessum breytingum en flestir fengu annað flug sama dag. Við biðjumst velvirðingar á því að þurfa að gera þessar breytingar,“ sagði hann.
Flugfélög hafa glímt við stuttar en verulegar truflanir síðan í vor þar sem aukning ferðalag rakst á við flugáætlanir, slæmt veður og takmarkaða mönnun eftir að tugþúsundir starfsmanna keyptu hluti í flugfélögunum eða fóru á snemmbúin eftirlaun meðan á heimsfaraldrinum stóð.
Seymour sagðist fullviss um að flugvélagið væri í stakk búið fyrir háannatíma í aðdraganda hátíðanna, en næstum 1.800 flugþjónar snúa aftur úr leyfi eftir faraldurinn á morgun og enn fleiri koma aftur til starfa 1. desember.