Karlmaður á sextugsaldri lést eftir að hafa verið stunginn af nauti í nautahlaupi í bænum Onda á austurhluta Spánar, að því er segir á vef BBC. Nautahlaupið var hluti af Fira de Onda-hátíðinni.
Nautið réðst endurtekið á manninn sem hlaut af höfuðáverka og slagæð fór í sundur á vinstra læri hans. Hann lést af áverkum sínum á spítala í bænum Villareal.
Bæjarráð Onda sagðist hafa hætt við frekari nautahlaup á hátíðinni en ekki yrði hætt við frekari viðburði.
Einungis örfá nautahlaup hafa verið haldin frá því að slakað var á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins fyrr í haust. Háværar umræður hafa verið á Spáni varðandi hvort alfarið eigi að hætta slíkum hlaupum.
Nautahlaup hafa lengi verið hluti af spænskri menningu. Í slíkum hlaupum hlaupa þátttakendur á undan nautum sem er sleppt lausum í ákveðnum hluta bæjarins. Í sumum hátíðum eru nautin síðan látin taka þátt í nautaati.
Meiðsli og áverkar er algengt í nautahlaupum. Síðan 1910 hafa að minnsta kosti 16 þátttakendur látið lífið í San Fermín-hátíðinni í borginni Pamplona.