Bíll Samönthu Jean Hopper sem hvarf ásamt dóttur sinni fyrir 23 árum fannst fyrr í vikunni í Arkansas í Bandaríkjunum. Að sögn yfirvalda fundust einnig líkamsleifar í bílnum. Tilkynnt var um hvarf Hopper 11. september 1998. NBC greinir frá.
Samtökin Adventures With Purpose (Ævintýri með tilgang) sem rannsaka gömul mál sem ekki hefur tekist að leysa (e. cold case) fundu bíl Hopper síðastliðin þriðjudag en hann fannst á tæplega tveggja og hálfs metra dýpi í stöðuvatni, samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni á svæðinu.
„Samantha var á ferðinni því hún ætlaði að skutla dóttur sinni, Courtney Holt, og síðan ætlaði hún á tónleika í Little Rock; hins vegar fundust Samantha, dóttir hennar og blái Ford Tempo bílinn hennar aldrei,“ sagði lögreglustjórinn í yfirlýsingu.
Líkamsleifarnar í bílnum verða sendar til rannsóknarstofu Arkansas í Little Rock til DNA-rannsóknar, að sögn embættismanna.
„Lögreglan vill senda fjölskyldu Samönthu Hopper og Courtney Holt einlægar samúðarkveðjur og við erum þakklát fyrir að hafa verið lítill hluti af því að koma þessu 23 ára gamla máli til lykta,“ sagði í yfirlýsingu.
Dezarea, dóttir Hopper, skrifaði á minningarsíðu að móðir hennar hefði verið komin níu mánuði á leið þegar hún hvarf og að systir hennar, Courtney, hefði verið um tveggja ára þegar þær hurfu. Þá sagði Dezarea það vera létti að líkamsleifarnar væru fundnar.
Í yfirlýsingu frá Adventures With Purpose sagði: „Samantha og börnin hennar tvö hafa nú verið flutt heim.“