Sammála um að hlýnun fari ekki yfir 1,5 gráður

Frá vinstri: Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, …
Frá vinstri: Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Leiðtogar G20-ríkjanna samþykktu í morgun mikilvægi þess að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður en gáfu ekki skýrt loforð um kolefnishlutleysi árið 2050, samkvæmt uppkasti sem AFP-fréttastofan hefur undir höndum.

Næstum 80% útblásturs kolefna í heiminum koma frá 20 helstu iðnríkjunum. Þau eru undir þrýstingi um að taka djarfar ákvarðanir í loftslagsmálum áður en viðræður hefjast á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow síðar í dag.

Í uppkastinu, sem heimildir herma að verði lokaplaggið, staðfesta G20-ríkin stuðning sinn við Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 um að halda „hækkun meðalhitastigs jarðar vel undir 2 gráðum og að reyna að takmarka hana við 1,5 gráður“.

Þar segja ríkin einnig að „til þess að halda mörkunum í 1,5 gráðum þurfi öll lönd að taka þátt með ákveðnum og kraftmiklum hætti“.

Sérfræðingar segja að til að ná 1,5 gráðu-markmiðinu verði að draga úr útblæstri kolefnis um næstum helming fyrir árið 2030 og að kolefnishlutleysi náist 2050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert