Þriggja fjallgöngumanna saknað

Ama Dablam.
Ama Dablam. Ljósmynd/Wikipedia.org

Að minnsta kosti þriggja franskra fjallgöngumanna er saknað eftir snjóflóð á svæði þar sem þeir voru staddir í Nepal, skammt frá Everest.

Fjallgöngumennirnir ætluðu að komast á tind sem er í um 6 þúsund metra hæð, skammt frá Everest, að sögn The Himalayian Times.

Fimm reyndir fjallaleiðsögumenn hafa verið fengnir til að leita að þeim og hefst leiðangurinn í fyrramálið.

Að sögn franskra fjallgöngusamtaka fór átta manna hópur frá Frakklandi til Nepals seint í september til að klífa þó nokkra tinda suður af hinu 6.812 metra Ama Dablam í nágrenni Everest.

Þrír þeirra yfirgáfu hópinn 24. október til að klífa tind skammt frá Ama Dablam en ekkert hefur heyrst frá þeim síðan 26. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert